Stjörnubörnin

Stjörnubörn eru óvenjulegir krakkar sem búa úti í geimnum. Þau koma frá hinum ýmsu stjörnum úti í himingeimnum. Þau eru skringileg í laginu og mjög ólík jarðarbörnum. Þau eru flest gerð úr málmi og upp úr höfði þeirra vex stöng sem þau nota til að ná sambandi hvert við annað.

Mörg stjörnubarnanna eiga gæludýr. Þau gæta þess vel að þrífa eftir þau og eru alltaf með lítinn poka við hendina fyrir úrganginn. Þau hafa séð að margir á jörðinni hugsa ekki nógu vel um að þrífa eftir hundana sína. Þau hafa áhuga á að breyta því.

Stjörnubörnin hugsa mikið um að umhverfið sé heilnæmt og hreint. Þau fylgjast með mengun um allan geim og ferðast í eldflaug sem þau hafa smíðað. Þau sáu í gegnum stjörnukíkinn sinn að jörðin er orðin mikið menguð. Þau ákváðu því að fljúga þangað og fræða jarðarbörn um hættuna sem stafar af mengun og hvað er til ráða til að draga úr henni.

Dag einn lögðu stjörnubörnin af stað til jarðar. Þau voru mjög spennt að hitta jarðarbörn því þau höfðu fylgst með þeim í nokkurn tíma. Það gekk á ýmsu hjá þeim í þessum leiðangri og eldflaugin bilaði á miðri leið til jarðar. Stjörnubörn voru í mikilli hættu og tvísýnt um endalok fararinnar. 

Stjörnubrá er stjörnustelpa sem á heima á stjörnunni Plútó. Hún á hund sem heitir Sól. Stjörnubrá þykir mjög vænt um Sól og fer ekkert án hennar. Stjörnubrá hefur mikinn áhuga á umhverfismálum og flokkar allt rusl. Hún tekur líka alltaf upp hundaskítinn eftir Sól og setur í poka.

Stjörnubrá á marga vini frá hinum ýmsu plánetum í himingeimnum. Vinirnir hittast reglulega og ræða um allt milli himins og jarðar. Jörðin hefur verið mikið í umræðunni hjá þeim upp á síðkastið þar sem þau hafa miklar áhyggjur af mengun þar.

Vinkona Stjörnubrár sem heitir Geimskutla býr yfir þeim eiginleikum að geta flogið. Stjörnubrá hefur oft flogið með henni. Stundum flýgur Máni með en hann er kaldur stjörnustrákur frá Mars.

Stjörnubrá hefur fylgst með krökkunum á jörðinni. Hún sér að þau kunna ýmsa leiki sem hún og félagar hennar kunna ekki. Rólurnar finnast henni mjög áhugaverðar og ekki síður sandkassarnir  þar sem hægt er að byggja allt mögulegt úr sandi. 

Stjörnubrá finnst höfin á jörðinni mest spennandi af öllu. Þau eru full af skrítnum sjávardýrum og sjávargróðri. Hana langar mikið til að sigla um öll heimsins höf og jafnvel læra að synda. Þá gæti hún rennt sér á sjóbretti á meðal höfrunganna. Henni finnast þeir svo sætir, svona brosandi og glaðlegir.

Blómalína er umhyggjusöm stjörnustelpa sem býr á reikistjörnunni Mars. Þar er nægt vatn til þess að plöntur nái að vaxa og dafna. Allur gróður sem Blómalína kemur nálægt vex vel í umsjá hennar. Með því að hlúa vel að plöntunum fær hún þær til að vaxa hraðar og gefa frá sér meira súrefni sem er svo nauðsynlegt lifandi verum.

Blómalína er með höfuð eins og blómapottur og uppúr höfðinu vex fallegt blóm. Hún kann bara að hugsa fallega og í kringum hana eru hjörtu og blóm sem skipta litum. Hún er sífellt brosandi og talar fallega til allra. Öllum þykir vænt um Blómalínu og vilja hafa hana nálægt sér.

Blómalína hefur tekið eftir því að margar stjörnur eru fátækar af gróðri og súrefni vegna mengunar. Á þeim er því gróður lítill eða jafnvel engin þar sem súrefni vantar. Á slíkum stöðum þrífast stjörnubörn ekki því þau nærast eingöngu á súrefni og ljósi. Blómalína hefur miklar áhyggjur af þessu.

Þess vegna ákvað hún að leggja sitt af mörkum og rækta gróður og eyða mengun þar sem hún getur. Vinkona Blómalínu heitir Geimskutla og fær hún oft að skutlast með henni á þær stjörnur þar sem hún vill gróðursetja. Nú er það jörðin sem Blómalína hefur áhyggjur af.

Máni er kaldur stjörnustrákur sem býr á stjörnunni Neptúnus. Hann á eðlu sem heitir Hrellir. Hrellir á það til að glefsa. Máni hirti hvorki um það né að hirða upp eðluskítinn eftir Hrelli og hló bara að athugasemdum þeirra sem settu út á þessa leiðinlegu framkomu.

Dag einn var Máni stöðvaður af löggu sem skipaði honum að fara með Hrelli í skóla þar sem þeir áttu báðir að læra að haga sér. Máni hlýddi því annars átti hann á hættu að missa Hrelli.

Í skólanum lærði Máni að hirða upp efti Hrelli og Hrellir lærði að brosa í stað þess að glefsa. Máni var mjög metnaðurfullur og vildi læra geimskipafræði. Skólastjórinn benti honum á að hann gæti lært að smíða geimskip á jörðinni. Það leist Mána vel á.

Það var draumur Mána að heimsækja jörðina til að skoða þar skóla sem honum litist vel á.  Hann á vinkonu sem heitir Geimskutla og hann ætlaði að biðja hana að skutla sér til jarðarinnar við tækifæri.

Það hitti svo vel á að Geimskutla og vinir hennar ætluðu einmitt að fara til jarðarinnar til að skoða ástandið þar en Máni og Hrellir voru velkomnir að fara með þeim. 

Eldon er eldhress geimflaugarstrákur sem flýgur um geiminn, hratt eins og elding. Hann er gerður úr málmi og að innan er hann fullur af tækjabúnaði. Tækin sjá til þess að hann geti flogið hvenær sem er og hvert sem er. Ofaná kassalöguðu höfði hans er ljós sem skynjar hættu þegar hann flýgur um.

Hann flýgur stundum með vini sína á milli stjarna. Eitt sinn komu vinir hans, Nökkvi og Hljómur, og báðu hann að skutla sér til jarðarinnar. Hljóm langaði að hlusta á tóneika og Nökkva langaði að sjá spennandi fótboltaleik.

Eldon sagði að það væri ekkert mál.  Fyrst þyrfti hann þó að koma við á tunglinu til að sinna áríðandi verkefni. Nökkvi og Hljómur sögðu að þeim lægi ekkert á og það væri bara  gaman.  Kannski myndu þeir loksins fá að sjá karlinn í tunglinu!

Þegar Eldon var um það bil að lenda á tunglinu breyttist  skyndilega liturinn á ljósinu á höfði hans. Eldon vissi samstundis að hætta var á ferðum og brást því strax við þegar hann sá marga geimsteina stefna í áttina til hans. Hann snarbeygði, en allt kom fyrir ekki. Einn steinanna skaust í hann svo Eldon skall með miklum látum á tunglið.

Sem betur fer meiddist enginn alvarlega en Eldon var þó ansi mikið skrámaður. Nökkvi og Hljómur hjálpuðu honum á fætur. Þegar Eldon strauk sér um höfuðið fann hann að ljósið vantaði.

Nökkvi er fimur stjörnustrákur sem kemur frá stjörnunni Polaris. Hann ferðast um allt á hjólabretti og ef hann er ekki á brettinu þá er hann að æfa fótbolta. Hann lærði smávegis í fótbolta þegar hann heimsótti jörðina eitt sinn en langar aftur þangað til að læra meira. 

Eitt sinn sá Nökkvi í gegnum stjörnukíkinn sinn að bestu fótboltaliðin á jörðinni ætluðu að keppa á heimsmeistaramóti.  Nökkvi hafði samband við Mána vin sinn.  Mána langaði líka og sagði  að kannski gætu þeir fengið Geimskutlu vinkonu þeirra til að skutla sér þangað. Ef til vill vildu fleiri stjörnubörn koma með í ferðina.

Nökkvi tók að  sér að ræða við hina krakkana en þá kom í ljós að Blómalína hafði verið að hugsa um að skipuleggja ferð til jarðarinnar. Nökkvi benti henni á að hann hefði mikinn áhuga á Brasilíu því þar væri heimsmeistaramótið haldið.

Blómalína sagðist einmitt hafa mikinn áhuga á Brasilíu þar sem gróðurinn og tréin væru í hættu vegna mengunar. Blómalína tók að sér að ræða við Geimskutlu sem tók vel í þetta og sagði að þetta gæti orðið mjög skemmtileg ferð. 

Það lá mikil spenna í loftinu, og í ferðinni gerast óvæntir og spennandi atburðir.

Friðdóra er friðelskandi stjörnustelpa sem gefur frá sér friðarljós í öllum regnbogans litum. Þegar hún ferðast um himingeiminn til annarra stjarna, þá skilur hún eftir stóran og fallegan regnboga  hvar sem hún kemur.

Friðdóra er einnig þeim eiginleikum búin að hún getur búið til fjöldan allan af friðarmerkjum.  Friðarmerkin eru hringlaga eins og boltar og getur hún kastað upp þremur friðarmerkjum í einu. Markmið hennar er að geta kastað fjórum. Hún er þess vegna alltaf að æfa sig.

Þar sem Friðdóra er svo blíð og góð þá líkar öllum vel við hana. Hún á margar friðardúfur. Þær vilja allar vera vinkonur Friðdóru.  Þess vegna er auðvelt fyrir Friðdóru að fá þær til að heimsækja hinar ýmsu stjörnur og hnetti. Hún hefur tekið eftir því að það eru ekki nógu margar friðardúfur á jörðinni.  Því vill hún gjarnan breyta.

Friðdóra á marga vini á meðal stjörnubarnanna. Bestu vinkonur hennar eru Blómalína, Stjörnubrá og Tóney. Eitt sinn hittust þær og þá ræddu þær um að heimsækja jörðina. Þær áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á jarðarbörnunum. Blómalína vildi huga að gróðrinum þar en Tóney vildi gjarnan hitta tónelsk jarðarbörn og hún hlakkaði til að spila með þeim.

Tóney er tónelsk stjörnustelpa sem hefur yndi af tónlist. Helst vill hún spila frá morgni til kvölds en hún þreytist fljótt þar sem hún er samsett úr mörgum hljóðfærum. Ofan á höfði hennar eru trompet, lúður og básúna og í stað handa er hún með hringlu og bjöllu.

Ef Tóney fengi ráðið þá myndi hún halda tónleika á hverjum degi. Vandamálið er að þar sem hún býr er enginn tónlistarskóli og enginn sem getur sagt henni hvernig á að spila á hljóðfæri.

Vinkona hennar sem heitir Stjörnubrá hefur sagt henni að á jörðinni séu frábærir tónlistarskólar. Tóney er dálítið smeyk við að fara niður á jörðina. Hún er hrædd við að krakkarnir þar geri grín að henni því hún er svo óvenjuleg í laginu. 

Eftir því sem Tóney hugsaði meira um tónlistarskólana á jörðinni, því spenntari varð hún að fara þangað. Hún heimsótti Blómalínu vinkonu sína og spurði hana álits. Blómalínu fannst að hún ætti að drífa sig í einn af þessum frábæru tónlistarskólum á jörðinni!

Póstlista skráning

Þessi vefsíða notar fótspor (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn. geyma upplýsingar um stillingar o.flr. Með því að nota vefinn samþykkir þú stefnu okkar um notkun fótspora.